Kristjana Marín skrifar:

Mig langar að segja ykkur hvað Hashimoto er. Hann er mjög algengur en fáir vita af honum. Hægt er að mæla í blóðprufu hvort hann sé til staðar.

Hashimoto er sjálfsofnæmissjúkdómur sem aðallega ræðst á skjaldkirtilinn og veldur rugli á starfsemi hans og er algengasta ástæðan fyrir því að hann verði vanvirkur. Einnig getur hann ráðist á heiladingulinn, brisið, eggjastokkana og nýrnahettur. Hann getur valdið öðrum sjúkdómum eins og til dæmis sykursýki, PCOD, Addison sjúkdómi, bólgu í heiladingli og hjartasjúkdómi. Einnig getur hann valdið B12 skorti, járnskorti/járnofhleðslu, háu kólesteróli, hækkuð lifraensím og hann getur valdið fósturmissi og ófrjósemi.

Hashimoto ruglar allri eðlilegri líkamasstarfsemi. Hann getur valdið örmögnun, heilaþoku, einbeitingarskorti, verkjum í líkama, streitu, kvíða, depurð, viðkvæmni, pirringi, þyngdaraukningu eða þyngdartapi, meltingatruflun, vandamáli með gallblöðru, grunnri öndun, hárlosi, þurrki, óþoli fyrir vissum mat, vöðvabólgu, vöðvaverkjum, höfuðverki, innri skjálfta, hita eða kulda, svitaköstum, bólgnum höndum og fótum, bólgnu andliti og augnloki. Hann getur valdið svefnleysi og hann getur valdið því að þú þráir svefn allan daginn.

Fólk með Hashimoto þarf að taka inn skjaldkirtilslyf sem er í raun skjaldkirtilshormón. Mikilvægt er að fá rétta lyfið og rétta skammtinn og þá geta lyfin hjálpað starfsemi kirtils og haldið niðri einkennum en ekki er það svo gott að fólk verði hraust það sem eftir er. Hashomto er ekki læknað. Það er alltaf til staðar og getur haldið áfram að valda rugli á líkamsstarfseminni. Fólk getur liðið vel í vissan tíma og alltaf getur Hashimoto blossað upp aftur og mismunandi hversu slæmt það verður. Einkennin geta verið mismunandi og komið í pörtum. Sumir dagar geta verið góðir á meðan aðrir dagar eru slæmir. Allt er það einstaklingsbundið.

Eins og sést getur Hashimoto sjálfsofnæmissjúkdómurinn verið alvarlegur og mikilvægt er að meðhöndla hann rétt.

Kristjana Marín Ásbjörnsdóttir, lífeindafræðinemi og formaður Skjaldar félags um skjaldkirtilssjúkdóma.

Ef þú hefur áhuga á að skrá þig í félagið þá er tengill hér að neðan,  félagsgjaldið er 2.500 kr. sem er millifært inn á reikning félagsins, gott að fá staðfestingu  á greiðslu skjaldkirtill.is@gmail.com
Ef þú vilt styrkja félagið án aðildar er lagt inn á sama reikning, upplýsingar eru  á skráningarblaðinu.   

Með fyrirfram þökk fyrir velvild í garð félagsins.