Fyrir mörgum árum greindist ég með vanvirkan skjaldkirtil. Ég fór strax á lyf og hef tekið þau samviskusamlega síðan. Ég hefði alveg viljað prófa aðrar lausnir áður en ég fór að taka inn lyf en ég var bara ekkert að spá í svoleiðis hluti þá og treysti mínum lækni að sjálfsögðu. Það er mjög erfitt þolinmæðisverk að hætta að taka inn lyf við vanvirkum skjaldkirtli og þegar maður er búinn að vera á þeim svona lengi eins og ég (+10 ár) þá er það nánast ógerlegt (1). En það er margt hægt að gera til að hjálpa skjaldkirtlinum að vinna sína vinnu vel hvort sem maður er að taka lyf eða ekki og eitt af því er að velja vel hvað við látum ofan í okkur.